Lausnin

Þjóðin er að sligast undan skuldum og algert öngþveiti að skapast. Mér finnst einungis spurning um vilja til að leysa fólk úr þessum skuldafjötrum.

Ríkið á að leysa til sín allt húsnæði í landinu. Það hefur ekki í för með sér nein útgjöld. Síðan á ríkið að leigja út húsnæðið fyrir 10 % af brúttótekjum leigutakanna. Þar eiga vaxtatekjur og arður líka að teljast sem tekjur. Nú gætu sumir sem eiga sitt húsnæði, rekið upp ramakvein um óréttlæti og eignaupptöku. Það gætu kanske verið 1000 fjölskyldur sem standa svo vel. Þeirra framlag til málsins verður að vera húsnæðið, ekki hægt að undanskilja neitt í þessu máli.

Ef 100 000 íbúðir eru í landinu, þá gætu leigutekjur orðið ca 10 milljarðar á mánuði, mv að gegnumsneitt verði leiga í kringum 100 000 á íbúð. Þeir sem minnst þéna, öryrkjar og annað lálaunafólk, væri að borga 15 000 á mánuði, en þeir tekjuhærri mun meira og í sumum tilfellum vel á annað hundrað þúsunda á mann. Lögfræðingastóðið tapaði að vísu vinnunni í stórum stíl, en er ekki í fínu lagi að þeim fækki eitthvað frá því sem nú er?

Fólki yrði með þessu fyrirkomulagi, kleyft að flytja frá og til staða út um allt land, engir átthagafjötrar lengur í formi verðlausra eigna. Eins hyrfi óttinn við að verða veikur eða gamall, þakið er alltaf til staðar. Eftirspurnin yxi í þjóðfélaginu og atvinnulífinu þar með skapað umhverfi til vaxtar.

Hvað er í veginum fyrir að þetta sé gert? Ætla stjórnvöld að bíða eftir algerri upplausn og öngþveiti, þar sem fólki og fjölskyldum er fórnað á altari faríseana? Þunglyndið verði algert og allt stoppast? Komið ykkur að verki og gerið fólki kleyft að lifa í þessu landi. 


Fjórða valdið farið að virka?

Páll Benediktsson vísar á bug að skilanefnd Landsbankans hafi afskrifað lán hjá Magnúsi Kristinssyni kvótasugu! Það eigi eftir að skoða hversu mikið hægt sé að ná uppí skuldirnar.

Er fjórða valdið farið að virka loksins? Eða á að bíða með að vísa þjóðinni löngutöng enn og aftur, þar til "rykið" fer að setjast? Maður spyr sig.


Viltasta geðveiki nær þessu ekki.

Nú er að flæða yfir öll siðgæðismörk og hreint anarkí framundan.

Magnús kvótasuga og Toyotasuga, er að fá afskrifaðar hærri upphæðir en nemur öllum niðurskurði ríkisútgjalda þessa árs og vel inná það næsta. Lárus hætti sem skilanefndarformaður í glæpaklíkunni, eðlilega, hans starfi var lokið við að leggja línur við framhaldsnauðgun á þjóðinni. Lárus sinnti endurskoðun fyrir fyrirtæki Magnúsar - engin tengsl, eða?

Við venjulegu verðum borin út úr íbúðunum okkar, vegna skulda sem við strangt til tekið, stofnuðum ekki til. Nú SKULU ráðherraræksnin svara spurningunni, hvoru megin þeir standa og síðan standa við svörin. Ef þeir standa gegn þjóðinni, þá eiga þeir samstundis að víkja. Ef þeir hins vegar ætla sér að tilheyra þjóðinni, þá að ná höndunum úr afturendanum og sýna í verki þá afstöðu.

Eva Joly getur ekki ein síns liðs varið okkur, það þarf að rétta henni hendi. Ef ekki ráðandi öfl, þá við.


Sólskin í myrkri!

Sólin hefur skinið, en einhvern veginn nær hún ekki til manns þessa dagana. Hvað veldur? "Skaupþing" veldur. Ekkert óeðlilegt né ólöglegt segir "Hreðjar Már". Sá sérstaki telur ekki tilefni til frystina eigna, þær séu ekki til! Allir telja hins vegar eðlilegt að skattborgarar borgi þetta "ekki" ólöglega, en gerendur eigi að sleppa - ótrúlegt.

Hvað varð þess valdandi að Seðlabankinn jós 80 milljörðum í "Skaupþing", á síðustu metrum þess? Hvers vegna batt sá sami banki gengið í nokkra daga um og eftir hrundaginn? Á þeim tíma segir sagan að einkaþoturnar hafi flogið sem aldrei fyrr, með fullar töskur af gjaldeyri innanborðs. Verði bankaleyndinni ekki aflétt eftir helgi, bíð ég ekki í framhaldið. Nú tel ég að fólk sé búið að fá endanlega nóg. 


Hingað til friðhelgir "farísear".

Björn braut niður húsið sitt fyrrverandi og sýndi okkur fram á að enn eru til heiðarlegir karlmenn á Íslandi.

Hann tók 34 milljónir að láni út á húsið, sem varla var meira en 60 % af veðhæfi þess. Seðlabanka- okurvaxtastefnan neyddi hann sem aðra, til erlendrar lántöku. Óðir bankaræningjar rændu bankann hans með fulltingi stjórnvalda og settu bankann á hausinn. Bankinn tók krónuna okkar með í fallinu og heildarreikningur vegna ránsins er stílaður á börnin okkar og ófædd þeirra börn. Björn hins vegar er látinn setja húsið sitt uppí ránsreikninginn og ekki nóg með það. Skuldin hans við bankann hefur hækkað þrátt fyrir að þeir hrifsuðu af honum húsið.

Bankinn ætlaði sér að leigja út húsið þar til "viðunandi" verð fengist fyrir það. Trúir einhver því að bankinn hafi ætlað sér að setja þær leigutekjur inná skuld Björns við bankann??? Sigurður G. og Sigurjón "digri" fóru öðruvísi að. Hví ætti þeirra módel ekki að gilda fyrir aðra landsmenn?

Takk Björn M. fyrir að sýna fram á að til séu karlmenni hér til lands, sem hafa kjark og þor til að velta um, þó ekki sé nema einu borði "faríseanna og landráðamannanna", og taka ábyrgðina á því. Hef samt litla trú á að dómstólar þori að dæma Björn til fangelsisvistar. Til þess standa þeir orðið of einir í slíku áliti, sem betur fer. 


Lagabálkar eitt og tvö

Maður þarf að sækja hökuna niður á hné, eftir áhorfið á Kastljós og alla lögfræðina hjá Sigurði G. Guðjónssyni. Það eru sem sé tveir lagabálkar fyrir tvær tegundir þjóðfélagsþegna í þessu landi.

Annar er fyrir okkur greiðendur/þolendur, og hinn fyrir þiggjendur/gerendur. Hvorki skattalög, refsilög né siðgæðisreglur ná yfir þá sem eiga böns af money, en allt lífið kortlagt í lögum og reglum fyrir þá sem lítið hafa fyrir sig að leggja.

Að menn sem sitja embætti sem eiga að tryggja ÖLLUM þegnum landsins réttláta meðferð skv gerðum og hegðun, taki og stingi í skúffu kærum og gögnum til þess; að því er virðist; freista þess að þau gleymist, er allt í fína lagi, þ.e.a.s. ef viðkomandi tilheyrir Þiggjendum/gerendum. Að menn sem hafa tekið sér af annarra fé slík fyrn að þeir geti stofnað "eigin" lífeyrissjóð, þá gilda ekki almenn lagaákvæði um slíka sjóði, né almenn skattalöggjöf. Að menn sem stjórna bönkum geti tekið gígant lán í bönkunum og síðan fellt niður endurgreiðsluákvæðin er allt í fína ef þeir tilheyra flokknum "þiggjendur/gerendur".

Hinir sem eru svo ólánsamir að eiga lítið og því ekki tekið eignir annarra traustataki til eigin nota, hafa enga réttarstöðu og teljast því til greiðenda/þolenda. Ef einhver vogar sér að bera blak af þeim hópi, er sá hinn sami álitinn hefnigjarn og vanhæfur!!!

Þetta land lögfræðinga, hagfræðinga, bankaræningja og spillingar, verður sífellt óðgeðfeldara og minna áhugavert að búa í. 


Allt í frosti

Hvernig ætla stjórnvöld að höndla framhald hér til lands, þar sem atvinnurekstur til lands og sjávar verður enginn? Einungis ríkisrekin fyrirtæki, sem tekin voru úr spilavíti andskotans gegnum ríkisbankana verða við lýði, mest megnis á suðvestur horninu.

Úti á landsbyggðinni eru fyrirtækin að gefast upp hvert af öðru og ástæðurnar alls staðar þær sömu, vextir og verðhrun hafa þurkað út eiginfjárstöðuna og lausafé ekkert. Útgerðin (sú sem ekki hefur braskað, vílað og dílað með veiðiheimildir) eru undir sömu sökina seldar og eru að stöðvast von bráðar. Verktakafyrirtækin um allt land; líka á Reykjavíkursvæðinu; flest komin á hausinn og restin komin á færiband dauðans. Heimilin fylgja á eftir og mörg hver þegar uppleyst og á vonar völ.

Þarf ekki að fara að prenta peninga í stórum stíl, til að koma hlutunum af stað aftur? Það hefur engum tekist hingað til að spara sig út úr hungursneyð, alla vega ekki svo ég viti. Væri ekki ráð að taka burt verðbætur að öllu leyti og prenta síðan peninga á út opnu, láta síðan fylgjandi verðbólgu eyða skuldum heimila og fyrirtækja? Er eitthvað annað ráð í kortunum? Að sjálfsögðu þarf að halda áfram með rannsókn hrunsins og leiða allan þann hroða til lykta, þó ekki væri til annars en að endurskapa sáttmála fólksins í landinu.

 


Hugmynd

Ég er með hugmynd og gæti vel hugsað mér að koma henni í framkvæmd og stjórna henni sjálfur (smá gorgeir sakar ekki).

Fæðuöryggi er það sem mestu skiptir í kreppu. Kreppan er ekki komin enn, en hún nálgast hröðum skerfum. Þegar stórir hópar fólks eru atvinnulausir og hafa ekki möguleika á að brauðfæða sig og sína, þá er komin kreppa. Skítt með gjaldþrotin vegna húsnæðisskulda, því sveitafélögin eru skyldug til að veita sínum þegnum húsaskjól, hvernig sem allt veltist. Maturinn er stærra mál.

Við þurfum að stofna verslun. Verslun þar sem íslenskir framleiðendur matvæla, selja sína vöru milliliðalaust. Við vitum að Baugur hefur bæði hálf drepið og drepið framleiðendur matvæla, með svívirðilegu þvinganarkerfi. Eggjabændur tældir af stað til þeirra með fulla bíla af eggjum, og síðan við verslanir Bónuss er þeim sagt að ekkert verði tekið af þeim nema með óheyrilegum afslætti á verði. Kartöflubændur píndir í skítinn og allir samningar þverbrotnir á þeim. Sama má segja um kjötframleiðendur og bakara. Það er sviðin jörð eftir þessa andskotans feðga, sem stjórnað hafa verlunarbransa landsins. Því þurfum við að breyta.

Stofnum verslun með íslenskum matvælum. Bændur þessa lands koma með sínar afurðir, bæði frosnar og ferskar. Trillukarlar með sinn fisk, saltaðan, frosin og ferskan. Fólk sem ekki hefur peninga til kaupanna, getur skipt á vinnu, vöru eða hreinlega fengið einhvers konar greiðsluplan til að hafa í sig. Bændur og framleiðendur losna undan áþján græðgispunga, sem hafa stjórnað í krafti þvingana, hvort viðkomandi lifa eða deyja.

Það þarf ekki svo ykja stór húsakynni fyrir slíka verslun, bara hugvit, heiðarleika og samstöðu. Látum heilbrigðisyfirvöld, samkeppnisráð og hvaða nöfnum sem þessar varðstöðvar einokunar nefnast, hamast eins og þær vilja. Slíka samstöðu getur enginn stoppað. Vilji er allt sem þarf og hann ættum við góðir landsmenn að hafa, eftir þá meðhöndlun sem við höfum hlotið.


Andskotinn illskuflár

Lengi ætla þeir að verða til vandræða.

Einar K. Guðfinnsson lætur eins og smábarn í sandkassa, sem í fýlu eyðileggur fyrir öðrum vegna þess að enginn vill leika við hann lengur. Dýralæknirinn, sem ætti að þekkja til ríkiskassans og auðnaðrinnar þar, krafsar til sín það sem hægt er þaðan. Honum er skít sama. Sama má segja um Geir, Þorgerði og aðra ráðherra sjálfgræðgisflokksins.

Vonandi verða það lokaorð stjórnar Seðlabankans, sem birtust í morgunn. Brottrekstrarbréf þeirra hljóta að vera í lokaferli.

Nýfrjálshyggjan, hin ógeðfelldi andskoti illskuflái, hverfur með þessu liði og vonandi um aldur og ævi. Verkefni morgundagsins er að koma járnum á alla "Baggera" Íslands. Taka af þeim þýfið sem þeir hafa stolið um allar jarðir og vista þá síðan til langframa fjarri landi og þjóð. 


Einfalt.

Væri ég skipstjóri á togara þar sem hluti áhafnarinnar væri staðinn að skemmdarverkum á veiðarfærunum, ræki ég alla sem í því stóðu. Það skiptir engu hver þeirra hafi verið með beittasta hnífinn, heldur var vilji þeirra til skemmdarverka ráðandi ástæða brottrekstursins.

Þeir stóðu að skemmdarverkum á þeim tækjum sem áttu að tryggja öllum í áhöfninni lífsviðurværis og útgerðinni rekstrargrundvöll. Hvers vegna gilda ekki sömu reglur á þjóðarskútunni og á togaranum? Hver er munurinn? Er hægt að horfa öðruvísi á framkomu stjórnvalda, bankastjórna, siðblindra fjármálaspekúlanta og fingralangra græðgisdjöfla, en að um skemmdarverk hafi verið að ræða? Hví í veröldinni er ekki tekið á þessum málum? 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband