23.3.2009 | 02:45
Hugmynd
Ég er með hugmynd og gæti vel hugsað mér að koma henni í framkvæmd og stjórna henni sjálfur (smá gorgeir sakar ekki).
Fæðuöryggi er það sem mestu skiptir í kreppu. Kreppan er ekki komin enn, en hún nálgast hröðum skerfum. Þegar stórir hópar fólks eru atvinnulausir og hafa ekki möguleika á að brauðfæða sig og sína, þá er komin kreppa. Skítt með gjaldþrotin vegna húsnæðisskulda, því sveitafélögin eru skyldug til að veita sínum þegnum húsaskjól, hvernig sem allt veltist. Maturinn er stærra mál.
Við þurfum að stofna verslun. Verslun þar sem íslenskir framleiðendur matvæla, selja sína vöru milliliðalaust. Við vitum að Baugur hefur bæði hálf drepið og drepið framleiðendur matvæla, með svívirðilegu þvinganarkerfi. Eggjabændur tældir af stað til þeirra með fulla bíla af eggjum, og síðan við verslanir Bónuss er þeim sagt að ekkert verði tekið af þeim nema með óheyrilegum afslætti á verði. Kartöflubændur píndir í skítinn og allir samningar þverbrotnir á þeim. Sama má segja um kjötframleiðendur og bakara. Það er sviðin jörð eftir þessa andskotans feðga, sem stjórnað hafa verlunarbransa landsins. Því þurfum við að breyta.
Stofnum verslun með íslenskum matvælum. Bændur þessa lands koma með sínar afurðir, bæði frosnar og ferskar. Trillukarlar með sinn fisk, saltaðan, frosin og ferskan. Fólk sem ekki hefur peninga til kaupanna, getur skipt á vinnu, vöru eða hreinlega fengið einhvers konar greiðsluplan til að hafa í sig. Bændur og framleiðendur losna undan áþján græðgispunga, sem hafa stjórnað í krafti þvingana, hvort viðkomandi lifa eða deyja.
Það þarf ekki svo ykja stór húsakynni fyrir slíka verslun, bara hugvit, heiðarleika og samstöðu. Látum heilbrigðisyfirvöld, samkeppnisráð og hvaða nöfnum sem þessar varðstöðvar einokunar nefnast, hamast eins og þær vilja. Slíka samstöðu getur enginn stoppað. Vilji er allt sem þarf og hann ættum við góðir landsmenn að hafa, eftir þá meðhöndlun sem við höfum hlotið.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.