Bílhræ til sölu!

Dekkin þvegin, hvítir hringir við felgur, málað yfir tyggjóklessur í ryðgötum og bílinn á sölu. Þannig gekk þetta fyrir sig í denn og gekk bara vel að krækja í saklausa kaupendur með peninga í vösunum. Þessar hugsanir komu upp í kollinn við áhorfið á Kastljós kvöldsins. Þar sátu menn og spáðu í hrakfarir krónunnar. Þar kom fram að einn af áhrifavöldum hruns gjaldmiðilsins, væru kolrugluð kaup íslenskra fyrirtækja á erlendri grund. Já, þeir hafa heldur betur glansað hvítu dekkjahringirnir þegar strákarnir okkar mættu með útrásar-lánsféð uppá vasann! Flottir stólar og jafnvel jakkar og kaupin gerð. Það hefur eflaust leyst úr læðingi ámóta jörfagleði hjá söluaðilum útlendu fyrirtækjana með góðar sölur, eins og hjá okkur strákunum með bílsölurnar í denn. Brosviprur voru merkjanlegar á spekingum Kastljóssins, þegar þeir röktu ástæður lítillækkunar krónunnar okkar. Hún er náttúrlega hálfgerður brandari þessi sögufræga útrás strákanna og ekki minna grátbrosleg er aðgerðarleysissaga stjórnvalda. Trúlega verður erfitt fyrir landshöfðingja nágranna þjóðanna, að dylja brosviprurnar á fundum með okkar stórhöfðingjum.   

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband